Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Thompson alveg örugglega kannski með

Leikarinn og fyrrverandi öldungadeildarmaðurinn Fred Thompsons frá Tennessee hefur lýst því yfir að hann ætli að skipa nefnd á mánudaginn sem á að kanna hvort hann eigi möguleiki á að verða næsti forsetaframbjóðandi repúblikana.

Yfir 60% repúblikana segjast óánægðir með núverandi frambjóðendur. Guiliani er ekki nógu íhaldssamur í samfélagsmálum, Romney hefur skipt um skoðun á byssum, fóstureyðingu og öllu þar á milli á síðustu tveimur árum og McCain virðist hálfskrítinn og elliær og studdi fjölgun hermanna í Írak. Thompson hefur áður verið einn helsti stuðningsmaður McCain - enda eru þeir gamlir vinir.

Thompson virðist því stíga ferskur fram á sviðið sem frambjóðandinn sem allir geta sætt sig við. Hann virðist vera sannfærður íhaldsmaður í anda Ronald Reagans (það er a.m.k. það sem stuðningsmenn hans segja) og hann þekkist í sjón eftir áratugaleik í sjónvarpi og bíómyndum - þó að Thompson verði seint kallaður sjarmör í anda Reagans. Auk þess er Thompson suðurríkjamaður, þar sem hjarta repúblikanaflokksins liggur. Thompson virðist því eiga möguleika á að taka kjósendur frá öllum núverandi frambjóðendum og sækja djúpt í raðir óákveðinna kjósenda. Thompson nýtur nú þegar yfir 10% stuðnings í skoðanakönnunum án þess að vera formlega í framboði.

Á hinn bóginn stígur Thompsons mjög varlega til jarðar. Það getur vakið spurningar um raunverulegan áhuga hans á framboðinu - og hver dagur sem líður fram að formlegri tilkynningu um framboð er dagur sem Thompson gæti verið að safna af krafti þeim 50-100 milljónum dollara sem hann þarf til þess að vera raunverulegur frambjóðandi.

Alveg öruggt hugsanlegt framboð Thompson hefur nú þegar vakið mikil viðbrögð annarra frambjóðenda sem allir óttast áhrif hans - því þó að hann sigli ekki sjálfkrafa til sigurs þá getur hann breytt baráttunni verulega.


Hillary með mikilvægan stuðning í Kaliforníu

Borgarstjóri Los Angeles, Antonio Villaraigosa, hefur lýst yfir stuðningi við Hillary Clinton sem næsta forsetaframbjóðanda demókrata. Borgarstjórinn er gríðarlega vinsæll í þessari næststærstu borg Bandaríkjanna og er einn áhrifamesti bandaríski stjórnmálamaðurinn af suður-amerískum uppruna (en þeir voru 21% kjósenda í Kaliforníu árið 2004) og hefur ítök meðal verkalýðsfélaga í fylkinu. Villaraigosa lagði sérstaka áherslu á reynslu Hillary - og beindi þar með spjótum að Barak Obama.

Obama og háspennuvír bandarískra stjórnmála

Þúsundir flykkjast á kosningafundi Barak Obama. Fundirnir minna helst á rokktónleika, með upphitunarböndum, söluvarningi og skemmtikrafti sem færir áhorfendum það sem þeir komu til að sjá. Í tilfelli Obama flytur hann stutta, sterka en ekki mjög innihaldsríka ræðu gegn stríðinu í Írak, fyrir bættri almannaþjónustu og um endalok núverandi stjórnmálaátaka. Obama hefur því virkað sem léttvigtarmaður þegar kemur að raunverulegum málefnum og virst hafa meiri áhuga á ímynd sinni sem nýs andlits bandarískra stjórnmála. Á nýlegum kosningafundum hefur hann t.d. staðið á gati varðandi eigin stefnu í heilbrigðismálum og ekki tiltekið hernaðaraðgerðir sem hugsanleg viðbrögð við hryðjuverkaárás á Bandaríkin. Hann átti líka í erfiðleikum með að stafa skothelt vesti (flak- en ekki flack-jacket) í orðahríð við John McCain..

Til þess að bregðast við þessum vandræðum - og stöðnun í flestum skoðanakönnunum - hefur Obama nú kynnt stefnu sína í heilbrigðismálum sem byggir á almennri sjúkratryggingu. Stefnan er nákvæmari en þær sem aðrir frambjóðendur hafa kynnt, en vekur ekki síst athygli vegna þess að þetta er í fyrsta nákvæma stefnan sem Obama birtir.

Almennar sjúkratryggingar eru hins vegar ekki sérstaklega frumlegt kosningamál á vinstri væng bandarískra stjórnmála - enda eitt af grundvallarmálum demókrata - og ólíkleg ein og sér til þess að fleyta honum á toppinn. Bill Clinton lagði t.d. mikla áherslu á þau í sínum kosningabaráttum. Bæði Hillary Clinton og John Edwards einnig kynnt drög að sínum stefnum í þessum málaflokki og Hillary hefur þegar tilkynnt að nánari útfærslur verið kynntar von bráðar.

Hillary er auk þess á heimavelli í þessum málaflokki, en hún fór fyrir starfshópi um endurbætur á heilbrigðistryggingakerfinu þegar hún var í austurvæng Hvíta hússins. Tilraunir Hillary og Bill á þessu sviði reyndust árangurslausar og kostuðu hann gríðarlegt pólitískt fjármagn og orku - enda hafa almennar sjúkratryggingar löngum verið kölluð háspennuvír bandarískra stjórnmála (third rail of American politics) þar sem pólitískur áhugi á endurbótum á heilbrigðiskerfinu kostar oftar en ekki pólitískt líf þeirra sem það reyna.

Misáhugaverð smáatriði í nýrri stefnu Obama munu vafalítið ekki draga fjölda nýrra kjósenda til liðs við Barak Obama. Fáir kjósendur eiga eftir að kynna sér stefnuna, hvað þá bera hana saman við stefnur hinna frambjóðendanna í forkjörinu. Stefnan gæti þó sannfært kjósendur um að Obama hafi raunverulegan áhuga á málefninu - líkt og Hillary og John Edwards - og ekki síst að hann hafi skýrar skoðanir, stefnur og þekkingu á málefnum sem eru til umræðu og skipta demókrata verulegur máli.


Höfundur

Tómas Brynjólfsson
Tómas Brynjólfsson
Stjórnmála- og hagfræðingur skrifar um forkjör fyrir bandarísku forsetakosningarnar frá Kaliforníu.

Eldri færslur

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband