Leita í fréttum mbl.is

Dvergarnir sjö náðu sér ekki á flug

Guiliani, McCain og Romney héldu stöðu sinni efst á haugi frambjóðenda repúblikanaflokksins. Hinir sjö náðu ekki að vekja sérstaka athygli á sér - nema fyrir lélega frammistöðu. Guilian stóð fyrir miðju og virtist tilbúinn í hlutverkið. Hann gat nú líka komið frá sér afstöðu sinnar til fóstureyðingar: að hann sé á móti fóstureyðingum en ríkið ætti ekki að skipta sér af slíkum ákvörðunum. Þessi afstaða hans hljómar vel - en fellur illa að íhaldssömum repúblikunum sem sjá fóstureyðingar bara sem morð. Romney stóð sig vel - líka þegar hann þurfti að verja trú sína sem Mormóni. Hann mun þó þurfa mun meira til þess að ná Guiliani. McCain náði að mestu leyti að halda í við hina tvo. Hann stendur þó frammi fyrir því vandamáli að meirihluti repúblikana er ósammála honum í nær öllu - allt frá afstöðu sinni til stríðsins í Írak til innflytjendamála og hann virðist of oft sammála George W. Bush.

Ólöglegir innflytjendur og mögulegar verðhækkanir á burrítós

Kappræður forsetaframbjóðenda repúblikana á CNN á þriðjudagskvöld munu vafalítið beinast að innflytjendamálum - á sama hátt og Íraksmálið varð eina áhugaverða umræðuefni demókratanna á sunnudag. Frambjóðendurnir munu sér í lagi takast á um lagafrumvarp sem John McCain er einn flutningsmanna að, George W. Bush styður og aðrir frambjóðendur repúblikana eru á andvígir - aðallega vegna þess að frumvarpið veitir að þeirra mati ólöglegum innflytjendum almenna sakauppgjöf - og er stórhættulegt öryggi Bandaríkjanna, bandarísks almennings (og ekki síst bandarískri menningu). Frambjóðendurnir vilja þó ekki heldur marsera þessum tólf milljónum upp í rútu suður á bóginn - enda hefði það óhugsandi áhrif á bandaríska hagkerfið, ekki síst hér í Kaliforníu. 

Mitt Romney hefur nýtt innflytjendamálið til þess að sækja hart að McCain og styrkja stöðu sína meðal íhaldsmanna - sem sjá hann sem hugsanlega skásta kostinn (sem nú stendur til boða), þótt hann hafi áður verið fylgjandi fóstureyðingum, kunni ekki á byssur, hafi skipt um skoðanir á öllum hugsanlegum málum og sé Mormóni.

Bandarískir kjósendur virðast þó vera jafnóvissir um skoðanir sínar á innflytjendamálum og flestir frambjóðendurnir. Samkvæmt nýlegri könnum styðja yfir 60% repúblikana frumvarp McCains (og Kennedys) en yfir 50% kjósenda segja að stuðningur frambjóðenda við frumvarpið dragi úr líkum á að þeir veiti frambjóðendunum stuðning. Fæstir vilja líka borga garðyrkjumönnunum, byggingaverkamönnunum og fóstrunum meira - hvað þá að borga tveimur dollurum meira fyrir burrito. 

Á meðan Guilian, McCain og Romney ráðast gegn hver öðrum á CNN mun Fred Thompson sitja hjá  - og fá tækifæri til þess að ræða frammistöðu (hugsanlegra) andstæðinga sinna á Fox News, helgasta vígi bandarískra íhaldsmanna, strax að loknum kappræðunum.        


Demókratar takast á um Írak

Írak virðist vera eina málið sem fær forsetaframbjóðendur demókrata til þess að ræða af raunverulegum áhuga og innlifun - a.m.k ef dæma má af sjónvarpskappræðum átt frambjóðenda á CNN á sunnudagskvöld.

John Edwards skammaði Hillary Clinton og Barak Obama fyrir að hafa ekki beitt sér gegn áframhaldandi fjárveitingum til stríðsins í Írak í sjónvarpskappræðum í New Hampshire á sunnudag. Edwards sagði að þrátt fyrir að öldungadeildardeildarþingmennirnir hefðu greitt atkvæði gegn aukafjárveitingum til stríðsrekstursins þá hefðu þeir ekki reynt að leiða þingflokkinn í sömu hátt - og væru því ekki raunverulegir leiðtogar. En það væri hann svo sannarlega sjálfur. Edwards nýtti kappræðurnar vel til þess að reyna að sýna fram á að hann væri sterkur frambjóðandi sem gæti vel staðið jafnfætis við Clinton og Obama, sem enn leiða flestar skoðanakannanir, þó að hann sé þeim enn nokkuð að baki í skoðanakönnunum.

Hillary lagði áherslu á að munurinn á frambjóðendum demókrata varðandi stríðið í Írak væri ekki mikill - og að stríðið væri fyrst og fremst vandamál George W. Bush. Hún virðist reyna eftir fremstu getu að beina athyglinni frá því að hún samþykkti heimild til stríðsrekstursins gegn Írak.

Joe Biden, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar, var eini frambjóðandinn fyrir utan Hillary Clinton, Barak Obama og John Edwards, sem náði að vekja sérstaka athygli á sér. Biden náði að útskýra vel af hverju hann kaus með aukafjárveitingunni til stríðsins í Írak -sem er viðkvæmt mál fyrir demókrata- , virtist hafa mjög góða þekkingu á málefninu og leit forsetalega út. Það er því hugsanlegt að Biden nái að brjótast upp fyrir 5%, sem gæti verið hjálpað honum að tryggja sér aukinn fjárstuðning fyrir kosningabaráttuna, þó að kappræður leiði seint til grundvallarbreytinga á stöðu frambjóðenda - nema að þeir fremji pólitískt sjálfsmorð, sem engin gerði að þessu sinni.


Mitt Romney með mikinn stuðning í mikilvægum fylkjum

Þrátt fyrir að Guiliani sé enn með forystu þá hefur Mitt Romney aukið verulega við fylgi sitt í mikilvægum fylkjum á borð við Iowa og New Hampshire, sem verða fyrstu fylkin til þess að kjósa í forkosningunum. Þar hefur hann jafnvel mælst með mestan stuðning allra frambjóðenda. Fred Thompson mun vafalítið hrista upp í hópnum, þar sem hann hefur oft mælst með yfir 10% stuðning án þess að vera í formlega í framboði og yfir 60% repúblikana eru ósáttir við þá frambjóðendur sem þeim standa til boða.

Á hinum endanum munu demókratar takast á sjónvarpskappræðum á sunnudagskvöld í New Hampshire. Þar gefst minni spámönnum tækifæri til þess að vekja athygli á sér, Obama að endurvekja kraftinn í baráttunni og Hillary að styrkja forskotið. Verst að fæstir Bandaríkjamenn hafa áhuga á kappræðunum, ennþá færri munu horfa á þær og þær munu hafa áhrif á enn færri - nema að einhver klúðri sínum málum algjörlega. Svo eru það repúblikanarnir á þriðjudag.


mbl.is Giuliani og Clinton enn með forustu; Thompson gæti aukið fylgið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama og Romney vilja fjölmennari her

Írak er grundvallarmál í kosningabaráttunni - og þróun átakanna þar á næstu mánuðum mun hafa mikil áhrif á úrslit kosninganna í nóvember á næsta ári. Það er því ekki að ósekju sem fá önnur utanríkismál virðist geta komist undan skuggans sem Íraksstríðið varpar á kosningabaráttuna.

Tveir nýgræðingar í utanríkismálum, Barak Obama og Mitt Romney, fengu þó tækifæri til þess að útlista drög að utanríkisstefnum sínum í sumarhefti Foreign Affairs (www.foreignaffairs.org) - og fleiri munu síðan fylgja í kjölfarið.

Frambjóðendurnir leggja báðir höfuðáherslu á að útlista stefnur sínar varðandi Írak. Obama vill kalla alla hermenn í bardaghlutverkum heim fyrir lok mars 2008 en Romney vill leyfa stefnu núverndi bandaríkjaforseta að njóta vafans. Báðir hafa lýst þessum afstöðum sínum áður.

Það er þó ekki aðeins varðandi Írak sem frambjóðendurnir virðast ósammála. Obama leggur höfuðáherslu á hættuna af gróðurhúsaáhrifunum og að Bandaríkin beiti sér fyrir friði fyrir botni Miðjarðarhafs - og tryggja þurfi öryggi Ísraels í því ferli Obama gleymdi reyndar að tilgreina Ísrael sem náið náið bandalagsríki Bandaríkjanna í nýlegum sjónvarpskappræðum - sem kom sér mjög illa þar sem gyðingar eru mjög áhrifamiklir í lykilríkjum fyrir demókrata.
Romeny leggur hins vegar höfuðáherslu á stríðið gegn alþjóðlegum hryðjuverkum - þ.e. öfgafullu íslam - og að Bandaríkin verði að gera allt til þess að verða óháð erlendum olíuframleiðendum.

Frambjóðendurnir eru þó ekki ósammála um allt og vilja báðir að Bandaríkin viðhaldi leiðtogahlutverki sínu á alþjóðavettvangi. Þeir vilja báðir styrkja herinn, berjast með öllum tiltækum ráðum gegn alþjóðlegum hryðjuverkum og stöðva útbreiðslu kjarnorkuvopna - þar með íhuga beitingu hervalds gegn Íran. Obama og Romney gagnrýna báðir nýtt mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna fyrir að samþykkja níu ályktanir gegn Ísrael en minnast ekki einu orði á ástandið í Súdan. Þeir vilja þó báðir að Bandaríkin takist á við alþjóðlegar ógnir í samstarfi við önnur ríki - þó að Romney sjái slíkt samstarf fyrir sér á þrengri og herskárri hátt en Obama.

Grein Obama er herskárri en búast hefði mátt við af fyrri ræðum frambjóðandans - þótt hann minnist líka á "mýkri utanríkismál" á borð við útbreiðslu AIDS, loftslagsmál og fátækt. Með harðari áherslum vill Obama sýna fram á að hann sé hæfur til þess að verða forseti ríkis sem telur sig í stríði á fjölda vígvalla - að hann geti tekið erfiðar ákvarðanir þrátt fyrir reynsluleysi sitt á alþjóðavettvangi. Auk þess stendur hann - líkt og aðrir frambjóðendur Demókrata - frammi fyrir því erfiða verkefni að breyta þeirri skoðun bandarískra kjósenda um að demókratar geti ekki tryggt öryggi Bandaríkjanna. Því eins mikið og bandarískir kjósendur eru andsnúnir stríðinu í Írak þá hafa minningar um árásirnar árið 2001 ennþá mikil áhrif á afstöðu þeirra til utanríkismála.


Gæti frú Thompson orðið til vandræða?

Andstæðingar Fred Thompson hafa fundið á honum veikan blett - og þá er ekki endilega verið að tala um stutta setu hans í öldungadeildinni þar sem hann skaraði á engan hátt fram úr, eða lítinn áhuga hans á stjórnmálum og kosningabaráttum (þar sem hann vakti aðallega athygli fyrir að keyra um á rauðum pallbíl). Hið raunverulega vandamál Thompsons - samkvæmt pólitískum bloggsíðum Jeri Khen, eiginkona Fred Thompsonhérna vestanhafs- virðist mun frekar vera eiginkona hans (Jeri Khen) - sem er hans önnur og ekki aðeins 25 árum yngri en Thompson heldur líka ljóshærð og mun huggulegri en hann. Virðist þá litlu skipta að konan er vel menntuð, hefur starfað fyrir virt ráðgjafafyrirtæki í Washington og þau kynntust mörgum árum eftir að fyrra hjónabandi Thompson lauk. Thompson virðist því ekki vera jafnsannfærður íhaldsmaður og atkvæðagreiðslur hans í öldungadeildinni frá 1995 til 2003 gefa til kynna. En þrátt fyrir að Thompson sé tvígiftur (sem fer illa í félagslega íhaldssama repúblikana) þá mun einkalíf hans þó varla verða honum að falli - jafnvel þrátt fyrir að dóttir hans hafi dáið af of stórum lyfjaskammti árið 2002. Það er ekki síst þar sem aðrir helstu frambjóðendur repúblikana eru síst betur staddir: Rudy Guiliani er þrígiftur, hefur játað á sig framhjáhald og sambandi hans við son sinn hefur lengi verið erfitt (svo eitt og annað sé tiltekið). John McCain er tvígiftur og var að öllum líkindum ekki fullkomlega trúr fyrri konu sinni. Mitt Romney er eini þeirra sem er ekki tvígiftur. Hann hefur hins vegar fram að þessu stutt sambúð samkynheygðra, rétt kvenna til fóstureyðinga og kann ekki á byssur - sem gerir hann svo sannarlega ekki vinsælan meðal íhaldsmanna.

Thompson alveg örugglega kannski með

Leikarinn og fyrrverandi öldungadeildarmaðurinn Fred Thompsons frá Tennessee hefur lýst því yfir að hann ætli að skipa nefnd á mánudaginn sem á að kanna hvort hann eigi möguleiki á að verða næsti forsetaframbjóðandi repúblikana.

Yfir 60% repúblikana segjast óánægðir með núverandi frambjóðendur. Guiliani er ekki nógu íhaldssamur í samfélagsmálum, Romney hefur skipt um skoðun á byssum, fóstureyðingu og öllu þar á milli á síðustu tveimur árum og McCain virðist hálfskrítinn og elliær og studdi fjölgun hermanna í Írak. Thompson hefur áður verið einn helsti stuðningsmaður McCain - enda eru þeir gamlir vinir.

Thompson virðist því stíga ferskur fram á sviðið sem frambjóðandinn sem allir geta sætt sig við. Hann virðist vera sannfærður íhaldsmaður í anda Ronald Reagans (það er a.m.k. það sem stuðningsmenn hans segja) og hann þekkist í sjón eftir áratugaleik í sjónvarpi og bíómyndum - þó að Thompson verði seint kallaður sjarmör í anda Reagans. Auk þess er Thompson suðurríkjamaður, þar sem hjarta repúblikanaflokksins liggur. Thompson virðist því eiga möguleika á að taka kjósendur frá öllum núverandi frambjóðendum og sækja djúpt í raðir óákveðinna kjósenda. Thompson nýtur nú þegar yfir 10% stuðnings í skoðanakönnunum án þess að vera formlega í framboði.

Á hinn bóginn stígur Thompsons mjög varlega til jarðar. Það getur vakið spurningar um raunverulegan áhuga hans á framboðinu - og hver dagur sem líður fram að formlegri tilkynningu um framboð er dagur sem Thompson gæti verið að safna af krafti þeim 50-100 milljónum dollara sem hann þarf til þess að vera raunverulegur frambjóðandi.

Alveg öruggt hugsanlegt framboð Thompson hefur nú þegar vakið mikil viðbrögð annarra frambjóðenda sem allir óttast áhrif hans - því þó að hann sigli ekki sjálfkrafa til sigurs þá getur hann breytt baráttunni verulega.


Hillary með mikilvægan stuðning í Kaliforníu

Borgarstjóri Los Angeles, Antonio Villaraigosa, hefur lýst yfir stuðningi við Hillary Clinton sem næsta forsetaframbjóðanda demókrata. Borgarstjórinn er gríðarlega vinsæll í þessari næststærstu borg Bandaríkjanna og er einn áhrifamesti bandaríski stjórnmálamaðurinn af suður-amerískum uppruna (en þeir voru 21% kjósenda í Kaliforníu árið 2004) og hefur ítök meðal verkalýðsfélaga í fylkinu. Villaraigosa lagði sérstaka áherslu á reynslu Hillary - og beindi þar með spjótum að Barak Obama.

Obama og háspennuvír bandarískra stjórnmála

Þúsundir flykkjast á kosningafundi Barak Obama. Fundirnir minna helst á rokktónleika, með upphitunarböndum, söluvarningi og skemmtikrafti sem færir áhorfendum það sem þeir komu til að sjá. Í tilfelli Obama flytur hann stutta, sterka en ekki mjög innihaldsríka ræðu gegn stríðinu í Írak, fyrir bættri almannaþjónustu og um endalok núverandi stjórnmálaátaka. Obama hefur því virkað sem léttvigtarmaður þegar kemur að raunverulegum málefnum og virst hafa meiri áhuga á ímynd sinni sem nýs andlits bandarískra stjórnmála. Á nýlegum kosningafundum hefur hann t.d. staðið á gati varðandi eigin stefnu í heilbrigðismálum og ekki tiltekið hernaðaraðgerðir sem hugsanleg viðbrögð við hryðjuverkaárás á Bandaríkin. Hann átti líka í erfiðleikum með að stafa skothelt vesti (flak- en ekki flack-jacket) í orðahríð við John McCain..

Til þess að bregðast við þessum vandræðum - og stöðnun í flestum skoðanakönnunum - hefur Obama nú kynnt stefnu sína í heilbrigðismálum sem byggir á almennri sjúkratryggingu. Stefnan er nákvæmari en þær sem aðrir frambjóðendur hafa kynnt, en vekur ekki síst athygli vegna þess að þetta er í fyrsta nákvæma stefnan sem Obama birtir.

Almennar sjúkratryggingar eru hins vegar ekki sérstaklega frumlegt kosningamál á vinstri væng bandarískra stjórnmála - enda eitt af grundvallarmálum demókrata - og ólíkleg ein og sér til þess að fleyta honum á toppinn. Bill Clinton lagði t.d. mikla áherslu á þau í sínum kosningabaráttum. Bæði Hillary Clinton og John Edwards einnig kynnt drög að sínum stefnum í þessum málaflokki og Hillary hefur þegar tilkynnt að nánari útfærslur verið kynntar von bráðar.

Hillary er auk þess á heimavelli í þessum málaflokki, en hún fór fyrir starfshópi um endurbætur á heilbrigðistryggingakerfinu þegar hún var í austurvæng Hvíta hússins. Tilraunir Hillary og Bill á þessu sviði reyndust árangurslausar og kostuðu hann gríðarlegt pólitískt fjármagn og orku - enda hafa almennar sjúkratryggingar löngum verið kölluð háspennuvír bandarískra stjórnmála (third rail of American politics) þar sem pólitískur áhugi á endurbótum á heilbrigðiskerfinu kostar oftar en ekki pólitískt líf þeirra sem það reyna.

Misáhugaverð smáatriði í nýrri stefnu Obama munu vafalítið ekki draga fjölda nýrra kjósenda til liðs við Barak Obama. Fáir kjósendur eiga eftir að kynna sér stefnuna, hvað þá bera hana saman við stefnur hinna frambjóðendanna í forkjörinu. Stefnan gæti þó sannfært kjósendur um að Obama hafi raunverulegan áhuga á málefninu - líkt og Hillary og John Edwards - og ekki síst að hann hafi skýrar skoðanir, stefnur og þekkingu á málefnum sem eru til umræðu og skipta demókrata verulegur máli.


Höfundur

Tómas Brynjólfsson
Tómas Brynjólfsson
Stjórnmála- og hagfræðingur skrifar um forkjör fyrir bandarísku forsetakosningarnar frá Kaliforníu.

Eldri færslur

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband